Vinaleið kynnt í Glerárkirkju

Fimmtudaginn 25. ágúst kl. 17:30 ¿ 19:00 segir Þórdís Ásgeirsdóttir kennari og djákni í Mosfellsbæ frá verkefninu ,,Vinaleið" í Varmárskóla og Lágafellsskóla. Í kynningu Þórdísar segir m.a.: ,,Vinaleið er hluti af stoðkerfi skólanna og er forvarnarstarf og byrjaði í Varmárskóla í febrúar 1999. Vinaleið er kristileg sálgæsla þar sem leitast er við að styrkja sjálfsímynd viðkomandi, gera heilt, leiðbeina og sætta. Markmið Vinaleiðar er að eiga samfylgd með nemandanum, rjúfa einangrun og létta vanlíðan sem erfiðleikar og þjáningar valda. Erfiðleikar geta verið af margskonar orsökum t.d. vanlíðan vegna stríðni, eineltis, höfnunar, missis eða veikinda. Vinaleið er einnig þjónusta og stuðningur við kennara og foreldra vegna nemenda/barna þeirra. Í Vinaleið leggur djákni áherslu á að vera vinur nemanda og er til staðar fyrir þá, hjálpa þeim og veiti þeim stuðning. Allir eru velkomnir í Vinaleið." Að loknu erindi Þórdísar, umræðum, kaffisopa og kökubita verður innihald næstu fræðslukvölda Glerárkirkju kynnt en stefnt er að því að bjóða upp á fræðslu síðasta fimmtudag í hverjum mánuði um málefni sem tengjast kirkju og fjölskyldum. Um starf Þórdísar má lesa nánar á vef Djáknafélags Íslands: www.kirkjan.is/annall/di.