Krílasálmanámskeið

Krílasálmar, er samheiti yfir kirkjuleg tónlistarnámskeið fyrir ungbörn á aldrinum þriggja til tólf mánaða og foreldra þeirra. Námskeiðin eiga rætur sínar að rekja til Danmerkur en orðið er þýðing á danska orðinu Babysalmesang. Krílasálmar hafa notið mikilla vinsælda í kirkjum á hinum Norðurlöndunum en fyrsta námskeiðið á Íslandi var haldið í Fella- og Hólakirkju vorið 2008 og heppnaðist það mjög vel. Á Norðurlandi hafa slík námskeið verið haldin reglulega í Akureyrarkirkju frá hausti 2010.

Á námskeiðunum eru kennd ýmis lög og leikir í notalegu umhverfi kirkjunnar og lögð áhersla á tengsl snertingar, söngs og hreyfingu. Notast við tónlist kirkjunnar en einnig önnur þekkt barnalög, leiki og þulur. Megintilgangur námskeiðanna er að veita börnunum gleði í upplifun af tónlist og söng og að kenna foreldrum hvernig nota má söng og tónlist til aukinna tengsla og örvunar við börnin þeirra. Einnig að örva tilfinninga- og hreyfiþroska barnsins í gegnum tónlistariðkun.

Rannsóknir hafa sýnt að það að syngja fyrir lítil börn auki einbeitingarhæfileika þeirra og hreyfiþroska. Raddir foreldranna eru þær fyrstu sem ungbörn læra að þekkja og það veitir þeim öryggi og ánægju að heyra þær. Söng-hæfileikar skipta því engu máli í þessu samhengi en málið snýst fyrst og fremst um að rækta tengsl foreldris og barns!

Leiðbeinandi námskeiðanna er Sigrún Magna Þórsteinsdóttir. Hún útskrifaðist með kantorspróf frá Tónskóla þjóðkirkjunnar vorið 2000 og meistaragráðu í kirkjutónlist frá Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn árið 2011 þar sem hún lagði sérstaka áherslu á barnakórstjórn og tónlist fyrir börn í námi sínu. Að auki hefur hún kynnt sér aðferðir við tónlistarkennslu ungra barna og kenningar um tónlistarþroska barna. Sigrún hefur starfað sem organisti við Akureyrarkirkju frá 2007.

Skráning og allar nánari upplýsingar veitir Sigrún Magna í síma 820-7447.
Einnig má senda tölvupóst á sigrun@akirkja.is