Líknarsjóðurinn Ljósberinn

Líknarsjóðurinn Ljósberinn

Þann 16. nóvember 2008 var stofnaður líknarsjóður við Akureyrarkirkju, Líknarsjóðurinn Ljósberinn, minningarsjóður séra Þórhalls Höskuldssonar.    
Séra Þórhallur Höskuldsson var sóknarprestur við Akureyrarkirkju frá árinu 1982 til æviloka, en hann lést 7. október 1995. Við andlát séra Þórhalls var þeim sem vildu minnast hans bent á Akureyrarkirkju. Séra Þórhallur hafði átt þá ósk heita að kirkjan eignaðist ljósaaltari og var ljósberinn hannaður og smíðaður fyrir andvirði minningargjafanna er kirkjunni bárust. Fanney Hauksdóttir arkitekt hannaði ljósberann og var hann vígður 17. nóvember 1995.
Líknarsjóðurinn Ljósberinn er stofnaður á afmælisdegi séra Þórhalls, 16. nóvember, og í tilefni af 40 ára vígsluafmælis hans 17. nóvember 2008. Hann er myndaður að tilhlutan ekkju og barna séra Þórhalls heitins um söfnunarfé það er safnast í Ljósberann (kertaaltarið) í Akureyrarkirkju.
Tilgangur sjóðsins er að veita líknar- og viðlagaaðstoð til sóknarbarna Akureyrarkirkju, með sérstaka áherslu á aðstoð til bágstaddra fjölskyldna fyrir jól, sem séra Þórhallur sinnti ætíð af hugsjón. Hans hjartans mál var alla tíð að hlúa að þeim er bjuggu við erfiðleika og lökust kjör. Hægt er að gefa ábendingar eða koma á framfæri umsóknum um framlög úr sjóðnum til presta Akureyrarkirkju og er farið með allar umsóknir sem trúnaðarmál.
Sjóðurinn er í vörslu Akureyrarkirkju og hægt er að leggja fjárframlög inn á reikning sjóðsins hjá Arionbanka, 0302-13-701414, kt. 410169-6149.    
Minningarkort má nálgast í Blómabúðinni Akri Kaupangi, Pennanum Eymundsson Hafnarstræti og í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju.