Tónleikar Stúlknakórs Akureyrarkirkju

Fimmtudaginn 10. apríl kl. 20:00 verða tónleikar Stúlknakórsins í Akureyrarkirkju. Þar mun kórinn syngja ýmis lög sem æfð hafa verið í vetur, íslensk og erlend, ný og gömul. Að auki munu nokkrar stúlkur syngja einsöng og Una Haraldsdóttir leikur einleik á orgel.

Söngkonurnar í Stúlknakórnum eru nú þrjátíu talsins á aldrinum 13 – 18 ára og hefur kórastarfið verið mjög fjölbreytt í vetur. Kórinn hélt jólatónleika ásamt Karlakór Akureyrar – Geysir, tók þátt í tónleikum Guðrúnar Gunnarsdóttur í Hofi, söng í messum í Akureyrarkirkju, dvaldi í æfingabúðum í Svarfaðardal eina helgi á haustdögum og svo mætti áfram telja. Sumarið 2015 stefnir kórinn á að fara í söngferð til útlanda og safnar í ferðasjóð með söng.

Stjórnandi Stúlknakórsins er Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og undirleikari á tónleikunum er Valmars Väljaots. Miðaverð er 1000 kr. og allir eru velkomnir.