Tónleikar Mótettukórs Hallgrímskirkju

Næstkomandi fimmtudag, 4. júní, heldur Mótettukór Hallgrímskirkju tónleika í Akureyrarkirkju, þar mun kórinn flytja nýtt kórverk eftir Jón Hlöðver Áskelsson og söngmessu fyrir tvöfaldan kór eftir Frank Martin.

Kórverk Jóns Hlöðvers ber heitið: „Hallgrímur lýkur passíusálmum“ fyrir blandaðan kór og talkór við samnefnt ljóð Hannesar Péturssonar. Um það segir tónskáldið m.a., Tildrög þessa tónverks eru þau að við lestur ljóðs Hannesar Péturssonar árið 1997 varð ég gripinn hugartökum sem kröfðust þess af mér að ég gerði ljóðinu skil í tónum og tali. Ljóðið er mjög myndrænt og lýsir á leikrænan hátt, þegar Hallgrímur Pétursson „leggur seint til hliðar hinn létta fjöðurstaf“ að loknu því stórvirki að hafa lokið samningu passíusálmanna.

Messa fyrir tvöfaldan kór eftir Frank Martin (1890-1974).
Þessi messa er eitt af glæsilegustu kórverkum sem samin voru á síðustu öld,  eða árið 1926, og tónskáldið, Fran Martin, tvímælalaust frægasta tónskáld Svisslendinga.
Mótettukórinn hefur ráðist í mikið stórvirki að flytja verkið opinberlega fyrstur kóra hér á landi. Það er AIM Festival, hinni alþjóðlegu tónlistarhátíð á Akureyri, einkar kærkomið að verða vettvangur svo einstaks tónlistarævintýris, sem flutningur þessa mæta kórverks er.

Tónleikarnir hefjast kl. 20.30 og er aðgangur ókeypis.