Sumartónleikar í Akureyrarkirkju 2020

Næstkomandi sunnudag 5. júlí hefst tónleikaröðin Sumartónleikar í Akureyrarkikju 2020.

Á þessum fyrstu tónleiku koma fram Alexander, Björn og Þórhildur sem öll eru ungir og efnilegir píanóleikarar. Þau hafa menntað sig við Tónlistarskólann á Akureyri og eiga framtíðina fyrir sér í píanóleik. Hvert þeirra mun flytja 20 mínútur prógram og má því búast við fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá í Akureyrarkirkju.
Tónleikarnir hefjast kl. 17.00 og er aðgangur ókeypis.

Alexander Smári Kristjánsson Edelstein er fæddur 15. maí 1998. Hann stundaði píanónám hjá Þórarni Stefánssyni við Tónlistarskólann á Akureyri frá 2009 til 2017.
Alexander hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir spilamennsku sína en hann hlaut meðal annars fyrstu verðlaun í píanókeppni EPTA árið 2012 og sérstök verðlaun sem einleikar í Nótunni sama ár. Alexander hefur haldið þónokkra einleikstónleika og komið fram á ýmsum viðburðum sem einleikari. Þar má meðal annars nefna tónleika í Hofi í tilefni 75 ára afmælis Tónlistarfélags Akureyrar og einleik á Kirkjulistaviku Akureyrar. Alexander spilaði á tvennum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands um páskana þar sem hann lék píanókonsert no. 20 eftir Mozart, í Hofi 18. apríl og í Langholtskirkju 19. apríl 2019. Alexander stundar nú nám við
Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peter Máté og er á leið í skiptinám til Svíþjóðar þar sem hann mun nema við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi.

Björn Helgi Björnsson hóf píanónám 6 ára gamall við tónlistarskólann á Akureyri og stundar þar nám hjá Lidiu Kolosowska í dag. Björn hefur tvisvar keppt í píanókeppni EPTA hér á Íslandi með góðum árangri en í síðustu keppni sem haldinn var í Hörpu hlaut Björn 1. verðlaun í flokki 19 ára og yngri.

Þórhildur Hólmgeirsdóttir er fædd árið 2001. Þórhildur er uppalin í Stykkishólmi þar sem hún hóf nám við píanóleik 6 ára gömul við Tónlistarskóla Stykkishólms. Þórhildur fluttist svo til Akureyrar þar sem hún fór á tónlistarbraut í Menntaskólanum á Akureyri. Þórarinn Stefánsson kenndi henni þá á píanó hjá Tónlistarskólanum á Akureyri. Hún lauk framhaldsprófi á píanó og þar með stúdentsprófi 15.maí 2020.

Skoðaðu fleiri spennandi viðburði á www.listasumar.is

*Viðburðurinn hlaut styrk frá Tónlistarsjóði, Héraðssjóði, Eyrin Restaurant og Listasumri.

Samstarfsaðilar Listasumars eru:
Akureyrarbær, Listasafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Rósenborg, Gilfélagið, Menningarhúsið Hof, Sundlaug Akureyrar, Iðnaðarsafnið, Amtsbókasafnið á Akureyri, Bílaklúbbur Akureyrar, Geimstofan, Myndlistarfélagið.