Skólaheimsóknir á aðventunni

Morgnarnir byrja heldur betur vel á aðventunni hér í Akureyrarkirkju. Nú tökum við á móti fyrstu bekkingum grunnskólanna í þátttökuleikhúsi þar sem börnin verða hluti af jólaguðspjallinu en þjónar kirkjunnar leiða þau til Betlehem sem persónur sögunnar. Við förum upp á kórloft þar sem Gabríel engill tekur á móti okkur. Við hittum fjárhirðana í anddyri kirkjunnar þar sem þeir orna sér við eldinn og úlfur liggur í leynum. Við bönkum á dyr gistihússins í predikunarstólnum þar sem gistihúseigandinn kemur syfjaður fram og vísar okkur á fjarhúsið þar sem við endum við jötuna og vitringarnir fær barninu gull, reykelsi og myrru og við syngjum Heims um ból. Hvílíkar töfrastundir. Eitt barnið sagði við kveðjustund í morgun "getum við gert þetta aftur og þá verið lengur?" Amen