Skólaheimsóknir

Í síðustu viku komu 330 börn úr grunnskólum Akureyrar í kirkjuna á sýninguna Lítil saga úr orgelhúsi sem þær Margrét Sverrisdóttir og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir fluttu. 

Lítil saga úr orgelhúsi er fallegt ævintýri fyrir börn sem kynnir fyrir þeim pípuorgel á lifandi og skemmtilegan hátt. Söguhetjurnar eru persónur sem búa saman í húsi, orgelhúsi, og eru eins og venjulegt fólk þrátt fyrir að vera í raun orgelpípur. Hver hefur sinn karakter og hlutverk og það gengur á ýmsu í samskiptum hjá orgelpípunum. Aðal söguhetjan, Sif litla (í raun og veru orgelrödd sem ber heitið Sivflöjte 1), sem er minnsta röddin í orgelinu, er orðin mjög þreytt á þessu eilífa rifrildi og samkeppni í orgelhúsinu. Hún ákveður að fara í burtu og finna sér betri stað að búa á. Þá reynir nú heldur betur á hinar orgelpípurnar og þær fara að leita að Sif litlu því hún er í raun ómissandi. Allt fer sem betur fer vel að lokum og orgelpípurnar læra að búa í sátt og samlyndi. 

Það var virkilega gaman að fá ungu áheyrendurna í heimsókn og þeir voru til fyrirmyndar.

Sýningarnar eru hluti af barnamenningarhátíð á Akureyri og voru styrktar af barnamenningarjóði.