Sigurður Flosason og Gunnar Gunnarsson leika á Sumartónleikum

Íslensk ættjarðarlög í nýju ljósi Sigurður Flosason og Gunnar Gunnarsson leika íslensk ættjarðarlög í eigin útsetninum, en þar gegnir spuni stórtu hlutverki. Á efnisskránni eru hefðbundin ættjarðarlög á borð við "Land míns föður" eftir Þórarin Guðmundsson, "Hver á sér fegra föðurland" eftir Emil Thoroddsen og þjóðsöng Íslendinga eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Einnig koma fyrir einsöngslög með þjóðlegu ívafi svo sem "Draumalandið" Sigfús Einarsson og "Nótt" (Nú ríkir kyrrð í djúpum dal) eftir Árna Thorsteinsson. Þá eru flutt dægurlög sem á síðari árum hafa fest í sessi sem ættjarðarlög svo sem "Ísland er land þitt" eftir Magnús Þór Sigmundsson og "Fylgd" eftir Sigurð Rúnar Jónsson. Sigurður Flosason og Gunnar Gunnarsson hafa áður vakið athygli fyrir diska sína "Sálma lífsins" og "Sálma jólanna ", en báðir nutu mikilla vinsælda og hlutu jákvæða dóma. Gunnar og Sigurður hafa auk þess báðir gefið út diska í eigin nafni og leikið inn á fjölda diska með öðrum. Nýjasti diskur þeirra, "Draumalandið" var tekið upp í Laugarneskirkju í júní sl. Þess má geta að Sigurður Flosason og Gunnar Gunnarsson voru tilnefndir til íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir diskinn.