Síðdegis- og kvöldstundir í sumar

Á hverju sumri koma tugir þúsunda ferðamanna í Akureyrarkirkju. Kirkjan hefur verið opin til klukkan 17 á daginn yfir sumarið en frá 1. júní verður boðið upp á aukna þjónustu við ferðafólk og alla þá sem hennar vilja njóta. Séra Jóna Lísa Þorsteinsdóttir mun annast þessa þjónustu og verður til staðar í kirkjunni alla mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga frá klukkan 17 til 22 og á föstudögum til klukkan 23.30. Einnig verður prestur á staðnum þrjá laugardaga í júlí og ágúst en viðvera á sunnudögum verður auglýst síðar.

Á hverju sumri koma tugir þúsunda ferðamanna í Akureyrarkirkju. Kirkjan hefur verið opin til klukkan 17 á daginn yfir sumarið en frá 1. júní verður boðið upp á aukna þjónustu við ferðafólk og alla þá sem hennar vilja njóta. Séra Jóna Lísa Þorsteinsdóttir mun annast þessa þjónustu og verður til staðar í kirkjunni alla mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga frá klukkan 17 til 22 og á föstudögum til klukkan 23.30. Einnig verður prestur á staðnum þrjá laugardaga í júlí og ágúst en viðvera á sunnudögum verður auglýst síðar.

Síðdegis- og kvöldstundirnar verða rammaðar inn af kyrrð, bænastundum, hugleiðingu, samtali og tónlist, að sögn Jónu Lísu. Á föstudögum klukkan 22 er viðstöddum boðið að þiggja altarissakramenti. Bænakarfa verður í anddyri kirkjunnar og lesefni fyrir þá sem vilja tylla sér og lesa eitthvað uppbyggilegt, huggandi eða gleðjandi. Allir eru hjartanlega velkomnir og vilja prestarnir hvetja bæjarbúa til að nýta sér þessa þjónustu ekki síður en ferðamenn og eiga í kirkjunni hljóða stund, kveikja á kerti, tala við Guð og hvíla sig á skarkala heimsins.

,,Við trúum því að með því að bæta þessari síðdegis- og kvöldþjónustu við yfir sumarmánuðina sé verið að mæta þörf sem er fyrir hendi og vonum að sem flestir nýti sér þjónustuna," segir Jóna Lísa. Hún mun hafa skrifstofu á Sigurhæðum og verða þar til viðtals alla virka daga milli klukkan 15 og 17 og eftir samkomulagi.