Síðasti foreldramorgunn vetrarins 22-23

Þá er víst þessi vetur að enda og margra góðra samvera að minnast með gullmolunum litlu og foreldrum þeirra. Í vetur hefur verið mjög vel sótt á foreldramorgnana sem er mjög gleðilegt. Foreldrar hafa kynnst og börnin séð heiminn stækka og stækka! 

Mikið eigum við sem stöndum að þessum morgnum eftir að sakna hópsins, en eins og gefur að skilja fara börnin oft í leikskóla eða til dagforeldra og foreldrarnir til vinnu. 

Við höldum hinsvegar galvaskar áfram með foreldramorgnana og byrjum aftur í september. Nýr foreldrahópur mun væntanlega mynda gott samfélag með krílunum sínum. Fyrirkomulagið verður svipað, þ.e. staðsetning í Glerárkirkju, morgunverðarhlaðborð, spjall og samvera. Annað slagið pöntum við fræðslu eða einhverja uppákomu fyrir foreldrana. 

Við þökkum öllum kærlega fyrir góðan vetur og vonumst til að sjá ykkur öll síðar. Við bendum á að í báðum kirkjum eru sunnudagaskólar alla sunnudaga yfir vetrartímann og tilvalið að mæta til okkar þar og hafa gaman saman. Einnig er boðið upp á vikulegt barnastarf fyrir grunnskóla-aldurinn sem er auglýst á heimasíðum kirkjanna beggja. 

Hér má sjá myndir frá síðasta foreldramorgni. Við vorum svo heppin að fá Ívar Helgason, söngvara og leikara með meiru. Hann söng fyrir börnin og foreldra eins og honum er einum lagið. Veitingar voru í veislustíl og sólin skein að sjálfsögðu skært á okkur þennan morgun. 

Eigið gott sumar og sjáumst heil!

bestu kveðjur, Sonja, Eydís og Halldóra.