Samvinna með sunnudagaskólana í kirkjum á norðurlandi

Þetta eru mjög sérstakir tímar fyrir okkur öll sem vinnum í kirkjum landsins í dag. Nánast allt starf okkar er breytt. Við hittum lítið sem ekkert hópana okkar og megum ekki vera með "venjulegar" stundir s.s. sunnudagaskólann vegna fjöldatakmarkanna. Það er mjög miður og söknum við samvista við börnin og foreldra mikið. Sunnudagaskólinn hefur alltaf verið ljúf og notaleg samvera með góðum hópi barna og fullorðinna og verið fastur punktur hjá mörgum fjölskyldum. Í október tókum við á það ráð að taka upp sunnudagskóla. Í byrjun var það bara Akureyrar - og Glerárkirkja sem sameinuðu krafta sína en fljótlega víkkuðum við út það samstarf. 

Sr. Oddur Bjarni á þá hugmynd að nýta mannauðinn betur og auka á fjölbreytnina. Hann bjó til sunnudagaskólateymi sem í eru; Gunnar Einar Steingrímsson úr Laufásprestakalli, Eydís Ösp Eyþórsdóttir úr Glerárkirkju, Sonja Kro úr Akureyrarkirkju og svo hann sjálfur, Oddur Bjarni Þorkelsson úr Dalvíkurprestakalli. 

Við höfum skipulagt stundirnar og skipt verkunum á milli okkar. Við höfum tekið upp bæði saman, í hóp og sitt í hvoru lagi og sent myndbönd á milli okkar. Eydís hefur átt veg og vanda að því að klippa saman myndbrotin með aðstoð sr. Sindra Geirs Óskarssonar. Fleiri prestaköll hafa fengið verkefni og sent inn efni í sunnudagaskólann eins og sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir, sr. Jarþrúður Árnadóttir og sr. Jóhanna Gísladóttir. Þetta er því mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Þessi vinna hefur verið allt öðruvísi en við erum vön og auðvitað vantar allt samspilið við áhorfendur, þátttöku þeirra og spurningar, ásamt öllum samsöngnum. Með þessari vinnu erum við að reyna að koma til móts við okkar sóknarbörn og vonumst við til þess að myndböndin öll komist til skila til barnanna. Öllum sunnudagaskólunum hefur svo verið streymt á facebooksíðum kirknanna. 

 

Sonja Kro, æskulýðsfulltrúi Akureyrarkirkju.