Samkirkjumál rædd á opnum fundi í Glerárkirkju

Á miðvikudagskvöldum í október og nóvember verða opnir fundir í Glerárkirkju þar sem fulltrúar kirkjudeildanna á Akureyri ræða samkirkjumál.

Tilefni fræðslukvöldanna er að árið 2001 undirrituðu fulltrúar kirkna í Evrópu skjal sem ber titilinn Charta oecumenica og hefur nú einnig verið gefið út á íslensku. Þetta er tímamótaskjal, því að því koma fulltrúar helstu kirkna Evrópu, rómversk kaþólskir, lútherskir, anglikanar og orþódoxir og reformertir. Því er ætlað að móta samræðu og samstarfsmenningu á öllum sviðum kirkjulífsins og að gefa sameiginleg viðmið slíku starfi. Það er því ekki litið á Charta oecumenica sem endanlegt skjal, heldur er því ætlað að vera verkfæri kirknanna til aukins skilnings og samstarfs.

Fyrsta kvöldið verður 1. október þar sem Jóna Lovísa Jónsdóttir og Pétur Björgvin Þorsteinsson munu segja frá þriðja samkirkjulega Evrópuþinginu í Sibiu árið 2007, en þau voru meðal annarra fulltrúar Íslendinga þar. Umsjón með fræðslukvöldunum hafa Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur, og Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni.

Að loknu 45 mínútna inngangserindi hvert kvöld er kaffihlé áður en umræður hefjast. Hverju kvöldi lýkur svo með helgistund. Dagskrá er öllu jafna lokið klukkan tíu. Þáttaka er öllum opin og ókeypis, en greitt er í kaffisjóð. Frekari upplýsingar er að finna á vef Eyjafjarðarprófastsdæmi: http://www.kirkjan.is/eyjafjardarprofastsdaemi