Óvenjulegir tónleikar í kirkjunni

Óvenjuleg tónlistardagskrá verður í boði í Akureyrarkirkju næstkomandi sunnudag, þann 20. júlí klukkan 17. Það er hljómsveitin Spilmenn Ríkínís sem mun flytja íslensk þjóðlög fyrir tónleikagesti og með í för eru sjaldséð gömul íslensk hljóðfæri svo sem symfón, langspil, saltari og bumba. Hljómsveitin Spilmenn Ríkínís er skipuð hinum frábæru tónlistarmönnum og söngvurum, Mörtu Guðrúnu Halldórsdóttur, Erni og Sigursveini Magnússonum og Halldóri Bjarka Arnarsyni. Þau eru klassískir tónlistarmenn, hinn ungi Halldór Bjarki er sérstaklega efnilegur og Marta, Örn og Sigursveinn eiga hvert um sig að baki langan og glæsilegan tónlistarferil. Gegnum tíðina hafa þau öll sýnt íslenskum þjóðlögum áhuga en Spilmenn Ríkínís ganga þó skrefi lengra, flytja ekki aðeins lögin heldur hafa lagt á sig ærið erfiði við rannsóknir á fornri tónlistarhefð og tónlist fyrri alda á Íslandi.

Tónleikarnir eru þeir þriðju í tónleikaröðinni Sumartónleikar í Akureyrarkirkju. Þeir standa yfir í klukkustund án hlés, aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.