Nýtt Krílasálmanámskeið að hefjast

Föstudaginn 2. mars hefjast Krílasálmar í Akureyrarkirkju en Krílasálmar er tónlistarnámskeið fyrir ungabörn á fysta ári og foreldrar þeirra. Á námskeiðinu er leitast við að kenna foreldrum hvernig nota má söng og tónlist til aukinna tengsla og örvunar fyrir börnin þeirra en rannsóknir hafa sýnt að tónlist hefur góð áhrif á tilfinninga- og hreyfiþroska barna. Í kennslunni er einkum notast við sálma og þekkt barnalög.

Við syngjum fyrir börnin, vöggum þeim og dönsum og á þann hátt fá þau upplifun af tónlistinni. Það krefst engrar sérkunnáttu að syngja fyrir börnin okkar. Fyrir þitt barn er þín rödd það alfallegasta í öllum heiminum, alveg sama hvernig hún hljómar.

Námskeiðið fer fram í kapellu Akureyrarkirkju á þriðjudögum og föstudögum kl. 10.30-11.30, kennt verður í 6 skipti alls.
Nauðsynlegt er að skrá sig á námskeiðið en fjöldi þátttakenda er takmarkaður við 10 börn. Sigrún Magna Þórsteinsdóttir hefur umsjón með námskeiðinu og skráningu má senda til hennar á netfangið sigrun@akirkja.is eða hringja í síma 820-7447.