Nýárskveðja til sóknarbarna

Janúar fær heiti sitt af Janusi, hinum rómverska guði umskipta og breytinga. Hann var þeirrar náttúru að hafa tvö andlit. Vísaði annað fram en hitt aftur. Janus sá því til beggja átta, það sem liðið er og hitt sem er framundan.  

Janus er okkur fyrirmynd í janúar. Við rifjum upp liðið ár og spáum í hvernig það nýja verði.  

Árið 2021 var skrautlegt og viðburðaríkt. Veirufaraldurinn setti sinn sterka svip á það. Þó var sá sem þetta ritar veirufrír allt árið 2021. Hann fékk veiruna undir lok ársins 2020 og hóf árið 2022 með því að prófa aðra tegund enda alinn upp við að leggjast ekki í sortir.  

Það getur verið erfitt að líta til baka. Engu að síður er það mikilvægt því dýrmæta lærdóma má læra af mistökum og glappaskotum. Ekki getur síður útheimt hugrekki að nota augun í hinu andlitinu og horfa á það sem í vændum er. Hvað dettur veirunni næst í hug? Tekst okkur að bjarga vistkerfinu? Hvernig fer þetta allt saman?  

Ekki er vel fyrir okkur komið ef við þorum ekki að líta fram á veginn, eiga okkur drauma, setja okkur markmið og gera plön.  

Einn þátturinn í baráttunni við veiruna hefur falist í því að reyna að láta þjóðlífið ganga eins vel og aðstæður hverju sinni bjóða upp á. Þótt starfið í Akureyrarkirkju hafi undanfarin tvö ár ekki verið eins og við vildum hefur starfsfólk prestakallsins reynt að halda úti þjónustu og kirkjulífi eins og framast er unnt. Það hefur sýnt aðdáunarverða þolinmæði, sveigjanleika og útsjónarsemi og það þökkum við af alhug.  

Nú horfum við fram á við, leyfum okkur að vera bjartsýn og vonumst til þess að smám saman fari safnaðarstarfið að komast í eðlilegt horf.  

Auk þeirrar röskunar sem veiran hefur valdið hafa verið miklar hræringar í prestaskipan safnaðarins og því ástæða til að fara sérstaklega yfir það mál hér. 

Sr. Hildur Eir Bolladóttir, sem verið hefur í löngu veikindafríi, kom aftur til starfa nú um áramótin. Við höfum saknað hennar, allra hennar frábæru hæfileika og björtu og uppörvandi nærveru og tökum henni fagnandi.  

Sr. Jóhanna Gísladóttir, tilheyrir prestaliði hins nýja Akureyrar- og Laugalandsprestakalls eftir að það varð formlega til fyrir rúmu ári. Hún býr í Eyjafjarðarsveit, hefur sérstakar skyldur við sveitina en skrifstofa hennar verður í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju og Akureyrarsókn fær líka að njóta hennar góðu starfskrafta. Jóhanna er í fæðingarorlofi en kemur til starfa í mars.  

Sr. Stefanía Steinsdóttir, prestur í Glerárkirkju, var sett til að aðstoða okkur hérna sunnan árinnar. Hún hefur reynst okkur einstaklega vel og við fáum að hafa hana fram á haustið. Hún verður t. d. með okkur Hildi í fermingarstörfunum.  

Sr. Magnús G. Gunnarsson hefur fengið lausn frá störfum í Dalvíkurprestakalli en verið settur til afleysinga hér í Eyjafirði. Hann mun fyrst um sinn aðstoða sr. Sindra Geir Óskarsson í Glerárprestakalli en eitthvað ætlar hann líka að létta undir með okkur hérna megin þegar líður á árið.  

Sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur, verður á hliðarlínunni eins og verið hefur og verður skipt inn á þegar þörf krefur. Við erum innilega þakklát fyrir að mega leita til hans.  

Árið 2022 er fullt af tækifærum og nýjum möguleikum. Starfsfólk Akureyrarkirkju hlakkar til að mega starfa með fólki í lifandi og þróttmiklum söfnuði.  

Með blessunaróskum, 
Sr. Svavar Alfreð Jónsson 
sóknarprestur