Matthíasarvaka í tali og tónum

Klukkan 20.30 sunnudaginn 12. nóvember verður Matthíasarvaka í tali og tónum í Akureyrarkirkju. Meðal flytjenda eru Þórunn Valdimarsdóttir ævisagnaritari, Guðrún Ásmundsdóttir leikkona, söngvaskáldið Megas, Hilmar Örn Agnarsson organisti og Stúlknakór Akureyrarkirkju. Aðgangur er ókeypis.

Fyrr um daginn, klukkan 11, verður guðsþjónusta í kirkjunni þar sem Guðlaugur Gunnarsson kristniboði predikar en sr. Svavar A. Jónsson þjónar fyrir altari. Félagar úr Soroptimistaklúbbi Akureyrar lesa ritningarlestra. Sunnudagaskóli verður í Safnaðarheimilinu á sama tíma. Fyrir aðeins 300 krónur geta kirkjugestir gætt sér á ljúffengri súpu og ilmandi brauði að guðsþjónustu lokinni.

Geta má þess að síðdegis verður málþing um Matthías Jochumsson á Amtsbókasafninu á Akureyri. Þar verða fluttir fyrirlestrar og boðið upp á kaffi og ljóðalestur.