Mánudagar gegn mæðu

Krepputímum fylgir uppgjör. Þá er reynt að finna það sem farið hefur úrskeiðis og leiddi til þrenginganna. Vítin kortlögð til að unnt sé að varast þau.
En kreppum fylgir ekki einungis uppgjör við fortíð. Þjóðin verður líka að gera upp við sig hvers konar framtíð hún vilji. Þar liggja helstu tækifæri kreppunnar. Hún er tækifæri til að staldra við. Láta ekki nægja að finna leiðirnar sem til kreppunnar lágu heldur uppgötva nýjar út úr henni. Opna nýjar dyr, ryðja nýjar brautir, skapa nýtt samfélag og íhuga þau gildi sem við viljum byggja það á.

Næstu fimm mánudaga verður efnt til samvera í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju undir yfirskriftinni ,, Mánudagar gegn mæðu". Þar verða umræður um stöðu þjóðarinnar og framtíðarhorfur og enda þótt samverurnar eigi sér stað í skugga kreppu vilja aðstandendur þeirra láta þær fara fram í ljósi góðra vona.
Samverurnar hefjast kl. 20.00 með stuttu spjalli frummælanda. Eftir tónlistarflutning og molasopa svarar frummælandi fyrirspurnum. Margrét Blöndal verður fundarstjóri á öllum samverunum. Þeir sem vilja stendur til boða að taka þátt í fyrirbænastund í kirkjunni áður en haldið er heim á leið.

Fyrsta samveran verður næstkomandi mánudag, 27. október kl. 20.00. Þar talar dr. Sigurður Kristinsson um gamlar og góðar dyggðir. Dr. Sigurður er forseti hug- og félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri.
Kammerkórinn Hymnodia syngur. Allir eru hjartanlega velkomnir. Aðgangur er ókeypis enda gefa allir sem að samverunum koma vinnu sína.