Mælt með Óskari og Sólveigu Höllu

Valnefnd í Akureyrarprestakalli ákvað á fundi sínum 16. ágúst s.l. að leggja til að séra Óskari Hafsteini Óskarssyni og Sólveigu Höllu Kristjánsdóttur guðfræðingi verði veitt embætti presta við Akureyrarkirkju sem auglýst voru nýlega. Biskup Íslands veitir embættin til fimm ára. Sjö sóttu um embættin. Samkvæmt starfslýsingu er um að ræða eftirtalin embætti: Embætti prests þar sem tekið er fram að viðkomandi þurfi að vera tilbúinn til að leiða fjölbreytt helgihald og takast á við erfið sálgæsluverkefni. Lipurð í mannlegum samskiptum og samvinnu er skilyrði. Valnefnd leggur til að séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Ólafsvík, verði ráðinn til þess embættis. Embætti prests með sérstaka áherslu á barna- og unglingastarf. Lipurð í mannlegum samskiptum og samvinnu er skilyrði. Embættið er greitt af Akureyrarsókn. Lagt var til að Sólveig Halla Kristjánsdóttir, guðfræðingur og æskulýðsfulltrúi í Akureyrarkirkju, verði ráðin til þess embættis. Í valnefnd sátu fimm fulltrúar úr prestakallinu, auk vígslubiskups á Hólum.