Lítil saga úr orgelhúsi

Orgelpípurnar þegar allt leikur í lyndi
Orgelpípurnar þegar allt leikur í lyndi

Tónlistarævintýrið Lítil saga úr orgelhúsi verður sýnt í kirkjunni á næstu dögum og hafa allir grunn- og leikskólar bæjarins fengið boð á sýninguna. Lítil saga úr orgelhúsi er myndskreytt tónlistarævintýri fyrir börn sem leiðir hlustendurna inn í töfraheim pípuorgelsins. Sagan gerist í orgelhúsinu þar sem orgelpípurnar búa og eru þær mjög mismunandi af stærð, útliti og hljómi. Það gengur á ýmsu og pípurnar fara að metast um mikilvægi sitt.  Þetta veldur Oktavíu organista miklum vandræðum, ekki síst þegar ein söguhetjan ákveður að fara burt, þá verður uppnám í orgelhúsinu og allt fer í vitleysu. Flytjendur í Akureyrarkirkju eru Margrét Sverrisdóttir leikkona og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir organisti en sagan er eftir Guðnýju Einarsdóttur, tónlistina gerði Michael Jón Clarke og myndirnar teiknaði Fanney Sizemore.

Það er Listvinafélag Akureyrarkirkju með stuðningi frá menningarsjóði Akureyrarbæjar og Tónlistarsjóði sem fjármagna sýninguna en hún er ókeypis fyrir börnin.