Kór Akureyrarkirkju auglýsir eftir fólki í breytt kórastarf

Frá og með haustinu verður starfi kórsins breytt.

Umsóknir sendist á Eyþór Inga Jónsson, kórstjóra, á netfangið eythor@akirkja.is 

Messuhópar verða áfram fjórir, en þeir fá algjörlega nýtt hlutverk. Hver messuhópur fær sína sérhæfingu. Messuhóparnir mega vera misstórir og syngja þeir ekki endilega til skiptis heldur fer það eftir skipulagi helgihaldsins hvernig messuhópar raðast í messur.  

Kór Akureyrarkirkju!

Hlutverk stóra kórsins verður að syngja við hátíðarhelgihald, tónleika, jólasöngva og vera glæsilegur fulltrúi kirkjunnar út á við. Kórinn mun æfa hluta af efni allra messuhópa, þannig að allir kórfélagar fái áfram að syngja allar tegundir tónlistar. Þematónleikar verða áfram haldnir, þannig að sum árin verður meiri áhersla á eina tegund tónlistar en aðra, en við reynum að endurtaka okkur ekki. Stórverk verða áfram flutt, en þó ekki á hverju ári. 

Kórfélögum verður leyft að vera í fleiri en einum messuhóp. Hægt verður að fá afleysingar úr öðrum hópum, þótt sérhæfingin sé önnur, þar sem öll tegund tónlistar verður æfð á æfingum stóra kórsins á þriðjudögum.  Prestar ætla að skipuleggja helgihald langt fram í tímann og verður mun meira um þemamessur. 

1.   Jakobskór Akureyrarkirkju

Hlutverk kórsins verður að syngja fallegar sálmaútsetningar og gömlu góðu lögin. Þarna gætu t.d. þeir fundið sig sem finnst erfitt að fylgja kórstjóranum eftir þegar hann kennir hlutina með miklum hraða, en líka þeir sem hafa gaman af að syngja fjölbreytta tónlist, mest á íslensku, en þó stundum á örðum tungumálum. Ekki stendur til að syngja bara eitthvað sem allir kunna, heldur verður að sjálfsögðu stöðugt verið að kenna nýtt efni á þægilegum hraða.

2. Klassíski kór Akureyrarkirkju

Hlutverk kórsins verður að syngja klassíska erfiðari tónlist, oft án undirleiks. Krafa um hröð vinnubrögð, nótnalestur og öryggi í raddbeitingu. Hraði verður á kóræfingum, og lítið farið í að kenna raddir. 

3. Sönghópurinn Synkópa

Hlutverk kórsins verður að syngja í kvöldmessum og morgunmessum með léttri tónlist. Djass, popp, gospel o.fl.  Þessi kór þarf að vera tilbúinn að læra allt utanað. Nánast alltaf undirleikur frá flygli eða hammond orgeli

4. Sóleyjakórinn

Uppeldisstöð kórsins. Gert verður ráð fyrir að það komi í hópinn upp úr tvítugu og hámarksaldur verði 40 ár. Við fertugt þarf fólk að fara í annan hóp. Hlutverk kórsins verður blanda úr hlutverkum hinna kóranna.

Það verður EKKI hægt að vera félagi í Kór Akureyrarkirkju nema með því að vera í amk einum messuhóp.  Og að það verður ekki hægt að vera bara í messuhóp og sleppa sameiginlegu starfi kórsins.


Skipulag kóræfinga

Þriðjudagsæfingar verða lengdar og þurfa allir kórfélagar að geta gert ráð fyrir allt að 3 klst æfingum. Æfingatími verður breytilegur. Hann fer eftir því hversu krefjandi verkefni næsta sunnudags verða.  Ég þarf að geta ráðstafað æfingatímanum algjörlega eftir helgihaldinu.

Tillaga:

19.30 Upphitun

19.40 Allur kórinn

21.15 Messuhópur næsta sunnudags - hinir fara heim

22.15 Æfingu lýkur (ef viðunandi árangur hefur náðst)

Kaffipása verði aldrei lengri en 15 mínútur. Hægt væri að hafa fleiri en eina “kaffistöð” til að flýta fyrir :)

Messudagur

Við organistarnir þurfum að geta boðað messuhóp kl. 9.30. Ef efnið er tilbúið og ekki erfitt, þá byrjar æfing ekki fyrr en kl. 10. (18.30 og 19.00 sé um kvöldmessu að ræða)