Komdu og sjáðu virginalinn!


Fyrsta fræðslukvöld Barokksmiðju Hólastiftis á vormisseri 2015.

Vissir þú að á ofanverðri nítjándu öld voru gerðar tilraunir með að smíða píanó með plokkuðum strengjum en ekki slegnum? Og áfjórtándu öld sat fólk með líru og plokkaði hana, ef til vill með fuglsfjöðrum. Þarna á milli er spennandi saga sembalhljóðfæranna. Sú saga var litríkust frá því á sextándu öld og fram eftir þeirri átjándu en síðan var hljótt um þessa tegund hljóðfæra allt þar til þau gengu í endurnýjun lífdaganna með endurreisn barokktónlistar um miðja tuttugustu öld. Barokksmiðjan rumskar á nýju ári og heldur á næstu vikum fjögur fræðslukvöld um barokktónlist. Fyrsta kvöldið verður haldið miðvikudagskvöldið 28. janúar í kapellu Akureyrarkirkju. Þar er athvarf virginals Barokksmiðjunnar og þar eru allir velkomnir til að sjá hljóðfærið og kynnast sögu sembalhljóðfæra. Eyþór Ingi Jónsson og Pétur Halldórsson stikla á stóru í þessari sögu, sýna myndir, leika tóndæmi og Eyþór leikur á virginalinn góða sem Barokksmiðjan eignaðist árið 2013. Sungið verður með undirleik sembalsins og þar kemur Elvý G. Hreinsdóttir til liðs við þá Eyþór og Pétur. Auk alls þessa verður hljóðfærið sýnt, því lýst og eiginleikum þess en sömuleiðis sérstæðri stillingu þess. Virginallinn er ekki jafnstilltur eins og nútíma píanó eða -orgel. Hann er í svokallaðri meantone-stillingu þar sem þríundir eru tandurhreinar. Það gefur færi á að huga svolítið að hljóðeðlisfræðinni og velta fyrir sér hvað gerir að verkum að eitthvað hljómar hreint og annað ekki. Þetta verður notaleg og afslöppuð stund með virginalnum og gestir verða hvattir til að spyrja spurninga og taka þátt í spjalli og vangaveltum. Allir eru hjartanlega velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Menningarráð Eyþings styrkir verkefnið