Kirkjuljóð

Kirkjuljóð 
Hin aldna maddama, 
hnarreist og svolítið staffírug þar sem hún breiðir niður tröppurnar sínar 
og dustar af þeim mesta rykið, 
er ekki ljósmyndafyrirsæta ferðamanna að aðalstarfi. 
Hún var sköpuð til dýrðar Guði almáttugum, eins og líklega aðrar maddömur. 
En hér býr meira undir. 
Í iðrum hennar býr allskonar. 
Heilt völundarhús af bernskuminningum, 
smurtertum, pönnukökum og mörgum árfarvegum af kaffi. 
Þessi megni ilmur af gömlum bókum, kertaljósum og blómum, 
Raðir af rauðu plussi með tilheyrandi ræskingum. 
Mest þó tónlist án upphafs og endis, uppi, niðri og allt um kring. 
Ó faðir gjör mig lítið ljós því að,
þeir sem sparka í bekkina fá ekki Jesúmynd fyrir prúðmannlega framkomu. 
Lög fyrir alla daga kirkjuársins, kóra og einsöngvara. 
Maddaman kyngir öllum harminum og hamingjunni. 
Hún stendur bara vörð á brekkubrúninni og telur kortérin, 
leikur æ lengra lag uns stundin er fullkomnuð og heila tímanum náð.  

Inga Dagný Eydal 2020