Kammerkór Norðurlands í Akureyrarkirkju

Vögguljóðatónleikar á allraheilagramessu sunnudaginn 6. nóvember kl. 17.00 í Akureyrarkirkju. Eins og yfirskriftin ber með sér samanstendur prógrammið af íslenskum vögguljóðum, nýjum og gömlum, sígildum perlum og minna þekktum gimsteinum. Tilgangurinn er að laða samferðafólk inn úr kulda og streitu, inn í vin kyrrðar, hlýju og rökkurs þar sem tækifæri gefst til að nema staðar og minnast látinna ástvina. Allraheilagramessa (1. nóvember) og allrasálnamessa (2. nóvember) eru fornir hátíðisdagar í kirkjuárinu og hafa orðið að einu í hugum fólks; allraheilagramessa var upphaflega tileinkuð minningu þeirra sem styrkt hafa kristnina, trúarhetjum og dýrlingum en allrasálnamessu var komið á síðar, svo sálir fátækara fólks fengju sérstakan tilhugsunardag.
Takið frá tíma, komið ykkur notalega fyrir í hálfrökkvaðri kirkju og njótið fagurra tóna í byrjun vetrar.
Stjórnandi kórsins er Guðmundur Óli Gunnarsson.
Miðaverð er kr. 2000, því miður er ekki tekið við greiðslukortum.