Jón Oddgeir Guðmundsson heiðraður

Mynd: Guðmundur Guðmundsson
Mynd: Guðmundur Guðmundsson

Á héraðssfundi Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis, sem haldinn var laugardaginn 29. maí, var Akureyringurinn Jón Oddgeir Guðmundsson heiðraður fyrir langt og mikið starf í þágu Þjóðkirkjunnar, með sérstakri kveðju og blómvendi frá biskupi Íslands.

Jón Oddgeir er fæddur árið 1949 og var virkur í starfi KFUM og Þjóðkirkjunnar frá unga aldri. Má segja að hann hafi helgað kristni og kirkju líf sitt með einstökum hætti og mikilli eljusemi. Hann starfaði lengi við sumarbúðirnar að Hólavatni og átti mikinn þátt í uppbyggingu starfsins þar, sem og byggingu Félagsheimilis KFUM og K í Sunnuhlíð á sínum tíma. Hann er hugmyndaríkur og hefur komið á fót nýjum leiðum til boðunar kristinnar trúar, eins og símsvaranum Orði dagsins sem fagnaði 50 ára afmæli nú í apríl. Eins má nefna útgáfu bílabænarinnar sem finna má á mælaborði þúsunda bíla og biblíuöskjunnar Orð Guðs til þíns sem allir þekkja og hafa veitt ófáum styrk og blessun gegnum tíðina, 

Þá hefur Jón Oddgeir setið í sóknarnefnd Akureyrarkirkju óslitið frá árinu 1985, jafnframt því að hafa átt sæti á Leikmannaftefnu Þjóðkirkjunnar frá upphafi. Þá átti hann frumkvæði að því að reistur var veglegur minnisvarði um sr. Friðrik Friðriksson á fæðingarstað hans að Hálsi í Svarfaðardal. 

Að lokum má hér minna á einkunnarorð Orðs dagsins sem fengin eru úr Hebreabréfinu. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.