Frábær danskur kór heimsækir Akureyri

Föstudagskvöldið 10. júlí kl. 20:00 mun Háskólakórinn í Árósum halda tónleika í Akureyrarkirkju.  Kórinn var stofnaður árið 1995 og var stofnandi hans Carsten Seyer-Hansen en hann stjórnar kórnum enn í dag. Í kórnum eru um 25-30 söngvarar á aldrinum 20-40 ára og er kórinn talinn vera einn af fremstu kórum Danmerkur. Kórinn hefur gefið út fjóra geisladiska og komið fram í útvarpi og sjónvarpi.Margir söngvaranna eru atvinnutónlistarmenn eða nemendur í tónlist annað  hvort við tónlistardeild Háskólans í Árósum eða við Konunglega Tónlistarháskólann í sömu borg. Allir söngvararnir hafa sérstakan áhuga á nútímatónlist og þá einkum norrænni. Mörg tónskáld hafa skrifað verk fyrir kórinn og hefur kórinn í þakklætisskyni bæði frumflutt og tekið upp verk eftir þau. Flutningurinn hefur iðulega vakið mikla athygli bæði innan Danmerkur og utan.

Tónleikarnir bera yfirskriftina Perlur norðursins en á efnisskránni verða verk eftir norræn tónskáld sem einkum fjalla um vorið og sumarið. M.a. verða flutt verk eftir Stefán Arason en hann var eitt sinn meðlimur kórsins og hefur kórinn frumflutt nokkur af verkum hans.

Aðgangur er ókeypis.