Fermingar 2020 - sumar og haust

Nú þegar liggur fyrir að takmarkanir á samkomuhaldi verða í allt sumar og jafnvel að einhverju leyti út árið höfum við tekið þá ákvörðun að fresta endanlega öllum fermingarathöfnum vorsins.

Í stað þeirra bendum við annarsvegar á athafnirnar sem þegar hafa verið boðaðar í haust, laugardaginn 29. ágúst, sunnudaginn 30. ágúst og laugardaginn 5. september. Hægt er að vera með tvær fermingar hvern dag en við viljum gjarnan forðast of mikið fjölmenni í þeim þannig að miðað er við að ekki séu fermd fleiri en 15 – 20 börn í hverri athöfn.

Hinsvegar höfum við ákveðið að bjóða þeim sem vilja upp á fermingar í sunnudagsmessum sumarsins. Ferðaplön margra hafa breyst og landsmenn eru hvattir til ferðalaga innanlands þannig að ef til vill finnst einhverjum ákjósanlegt að hafa ferminguna sem þátt í sumarfríinu. Fyrsta slíka fermingin gæti farið fram sjómannadaginn 7. júní. Hámarksfjöldi í þessum sumarfermingum yrði að miðast við þau ákvæði samkomubanns sem í gildi eru á hverjum tíma. Þar erum við sennilega að tala um 5 – 10 börn að hámarki hvern sunnudag.

Við hvetjum þau sem eiga eftir að ákveða fermingardagana til að hafa samband sem fyrst. Gyða Hrönn Sigþórsdóttir, kirkjuritari, hefur yfirumsjón með skráningum. Vinsamlega hafið samband við hana á netfanginu gyda@akirkja.is eða í síma 4627700.

Við hlökkum ofboðslega til að fá loksins að samfagna fermingarbörnunum á dögunum þeirra í sumar og haust!

Bestu kveðjur,
Hildur Eir og Svavar Alfreð