Sumartónleikar í Akureyrarkirkju

Næstkomandi sunnudag, þann 12. júlí kl. 17.00, verða tónleikar númer tvö í tónleikaröðinni Sumartónleikar í Akureyrarkirkju. Á tónleikunum koma fram kammerkór Hallgrímskirkju, Schola Cantorum, undir stjórn Harðar Áskelssonar, og Björn Steinar Sólbergsson orgelleikari. Schola Cantorum var stofnaður árið 1996 af stjórnanda kórsins, Herði Áskelssyni, kantor við Hallgrímskirkju, og hefur síðan starfað við góðan orðstír og haldið fjölda tónleika. Verkefnaval kórsins hefur jafnan verið fjölbreytilegt en á þessum tónleikum munu þau flytja tónlist eftir Felix Mendelssohn í tilefni þess að í ár eru liðin 200 ár frá fæðingu hans.
Schola Cantorum var útnefndur annar af tveimur tónlistarhópum Reykjavíkur árið 2006 og skrifaði undir þriggja ára samstarfssamning við Reykjavíkurborg í byrjun árs 2007. Schola Cantorum var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007.

Tónleikarnir standa í klukkustund án hlés, aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.