Barnakórar flytja Fuglakabarett

Sunnudaginn 21. apríl kl. 17:00 munu barnakórar og Stúlknakór Akureyrarkirkju ásamt hljómsveit sýna Fuglakabarett sem Daníel Þorsteinsson, tónskáld og píanóleikari og Hjörleifur Hjartarson, skáld og tónlistarmaður, hafa samið sérstaklega fyrir kórana. Kabarettinn fjallar um fugla í náttúru Íslands, sérkenni þeirra og söng. Aðal söguhetjan er hinn sjálfumglaði Krummi sem tekur á móti farfuglunum að vori, en þeir hafa allir sögu að segja af ævintýrum vetrarins fjarri Íslandi.

Krummi lítur stórt á sig og leikur hlutverk gestgjafa á Íslandi þegar farfuglarnir koma fljúgandi að vori. Hann kynnir hvern gest og lætur sem hann heyri ekki í snjótittlingunum sem hlæja að rostanum í honum, enda finnst honum lítið til þeirra koma. Krummi spyr frétta hjá farfuglunum og lóan, spóinn, krían og fleiri fuglar syngja um ferðalög sín. Þegar helstu farfuglarnir hafa skilað sér tilkynnir Krummi að sumarveislan sé hafin og fuglarnir syngja saman lokasöng um ,,ballið góða í boði náttúru norðurslóða”.

Hljómsveit skipuð þeim, Daníel Þorsteinssyni píanóleikara Stefáni Ingólfssyni bassaleikara, Matti Sarinen gítarleikara og Halldóri Haukssyni slagverksleikara leikur með kórunum á sýningunni. Leikstjórn er í höndum Ívars Helgasonar og búningana hannaði Helgi Þórsson. Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stýrir kórunum.

Aðgangur á sýninguna er ókeypis og allir eru velkomnir, stórir sem smáir.