Akureyrarkirkja 65 ára: Hátíðarmessa og kaffisala

Akureyrarkirkja hin nýja verður 65 ára á fimmtudaginn, en hún var vígð þann 17. nóvember 1940. Af þessu tilefni verður hátíðarmessa í kirkjunni sunnudaginn 20. nóvember klukkan 14. Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson predikar en séra Svavar A. Jónsson, séra Sólveig Halla Kristjánsdóttir og Valgerður Valgarðsdóttir djákni þjóna fyrir altari. Við guðsþjónustuna verður frumflutt nýtt tónverk eftir Jón Hlöðver Áskelsson sem hann samdi að beiðni Listvinafélags Akureyrarkirkju. Verkið er skrifað fyrir kór, orgel og málmblásara. Kór Akureyrarkirkju syngur við athöfnina og organisti er Björn Steinar Sólbergsson. Að messu lokinni verður kaffisala Kvenfélags Akureyrarkirkju í Safnaðarheimilinu.