Akureyrarkirkja er 80 ára

Akureyrarkirkja er 80 ára í dag, 17. nóvember 2020.

Við venjulegar aðstæður hefðum við gert okkur dagamun, minnst tímamótanna með viðeigandi hætti, boðið upp á molasopa og jafnvel smurt. 

Akureyrarkirkja er óumdeild táknmynd bæjarins. Sumir sjá fyrst bygginguna sjálfa þar sem hún markar bæjarbraginn og kirkjutröppurnar sem nýtast vel í samkomubanni fyrir líkamsrækt. Fyrir mörg okkar tengist Akureyrarkirkja stórum tímamótum í lífi okkar; skírn, ferming, brúðkaup, útför, hátíðarstundir eins og jólamessan og oft – oft bara venjuleg messa, án nokkurs tilefnis annars en að sækja í kirkjuna og hlusta á trúarboðskapinn, predikun prestsins og íhuga. Ég þarf ekki að vera sammála prestinum í öllum málum! Messuformið býður svo sem ekki upp á rökræður. Í messu gefst mér þó færi að rökræða við sjálfan mig – í huganum – þar sem tími gefst til að draga andann, spyrja sjálfan mig áleitinna spurninga um viðhorf til hvers sem frelsi hugans býður mér að hugsa um. Kórinn, organistar og fjölmargt listafólk auðgar með flutningi sínum andann og hugann og bætir þannig ofan á hugvekjuna. Að njóta slíkra stunda í Akureyrarkirkju, sem sjálf með yfirbragði sínu og áferð skapar umhverfi fyrir bæði trúarlíf og gagnrýna hugsun í senn, finnst mér auðga líf mitt. 

Fyrir hönd sóknarnefndar óska ég bæjarbúum til hamingju með afmæli Akureyrarkirkju og þakka um leið öllu starfsfólki kirkjunnar og sjálfboðaliðum sem koma að starfinu með margvíslegum hætti, oft sem fáir sjá, en margir njóta. 

Við gerum okkur dagamun þegar daginn tekur að lengja á ný. 

Ólafur Rúnar Ólafsson,
formaður sóknarnefndar.