ÆFAK á landshlutamót á Vopnafirði 14. - 16. október 2022

Við erum afar stolt af okkar góða unglingahópi sem skellti sér á mót á Vopnafirði nú á dögunum. Þau voru sér og sínum algerlega til sóma. 

Á Vopnafirði var mikið líf og fjör og metnaðarfull dagskrá fyrir unglingana sem komu víðsvegar að. Sóknarprestur staðarins, ásamt mörgu öðru góðu fólki var í forsvari og skipulagði frábæra helgi sem ungmennin munu koma til með að muna um ókomin ár. Skemmtilegt var hversu vel allir íbúar staðarins tóku þátt í mótinu og hjálpuðu til á einn eða annan hátt. Greinilegt er að það ríkir mikil samheldni á Vopnafirði. 

Við norðanfólkið, frá Akureyri og Dalvík fórum saman í rútu og hittum unglinga/leiðtoga/presta frá austfjörðunum. Við kynntumst nýju fólki, eða rifjuðum upp eldri kynni og tókum þátt í allskonar viðburðum. Má þar telja; hæfileikakeppni, ball, fræðslu um kærleiksboðorðin, saumastofu, bocciakeppni, spilamennsku, bakstri, leikjum í íþróttahúsi, helgistundum, messu, matmálstímum og svo mætti lengi telja. Gaman er frá því að segja að unglingarnir frá Akureyrarkirkju settu saman þrjú lið og tóku þátt í hæfileikakeppninni. Eitt liðið okkar varð í 2. sæti og uppskar mikið lófaklapp og hvatningu og einnig verðlaun. Bara það að fara upp á svið er stórt afrek og sýnir mikið hugrekki svo segja má að margir sigrar hafi verið unnir þessa helgi. 

Við erum afar heppin og þakklát fyrir að vera með þessum krökkum öllum og skapa góðar minningar út lífið. 

Með hópnum frá Akureyri fóru Sonja, æskulýðsfulltrúi og tveir leiðtogar; Svanhvít og Alma. 

Hér má sjá fleiri myndir frá mótinu.