H.Æ.N.A

Hæfileikakeppni Norðausturlands fór fram í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju laugardagskvöldið 31. janúar sl. Atriðin voru jafn misjöfn og þau voru mörg. Sumir stigu einir á svið á meðan aðrir sýndu hópatriði. Það var sungið, leikið á hljóðfæri, dansað og sýndir leikþættir. Það er greinilegt að Norðausturland hýsir fullt af upprennandi listafólki.
Kynnir kvöldsins var Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju, en dómnefndina skipuðu, Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur, Hjörtur Steinbergsson, organist í Glerárkirkju og Jóna Lovísa Jónsdóttir, prestur í Akureyrarkirkju. Dómarar gáfu sér góðan tíma í að fara yfir atriði kvöldsins enda býsna erfitt að velja þrjú bestu atriðin þar sem af miklu var að taka.

Sigurvegarar kvöldsins voru þau Birkir, Birgitta, Birta og Lára. Þau hófu feril sinn sem tónlistarmenn á skólaskemmtun á degi íslenskrar tungu og frægðin virðist engan enda ætla að taka ;-) Þau fluttu lagið Halleluja. Birkir spilaði á gítar og stelpurnar sungu. Þótti dómnefndinni flutningurinn afar góður, fallegur söngur og gott undirspil.
Annað sætið hlutu Stompstrákarnir úr KFUM. Ekki fengust miklar upplýsingar um þessa hæfileikamenn en víst er að frægðarstjarna þeirra er rísandi! Þeir fluttu atriði sem þeir nefndu "Hver ertu?". Hljóðfærasetningin þótti mjög framsækin en spilað var á allt mögulegt. Frumlegt og skemmtilegt atriði.
Tvö atriði deildu með sér þriðja sætinu. Það voru þær Jana og Lilja sem fluttu lagið "Simple song". Jana og Lilja hafa komið fram á árshátíðum og stefna á heimsfrægð ;-) Fluttningur þeirra þótti ljómandi góður, fallegar raddir og samstíga í söngnum.
Hún Fanney frá Vopnafirði hlaut líka þriðju verðlaun fyrir framlag sitt. Hún hefur getið sér gott orð fyrir ljúfa rödd og hefur m.a. tekið þátt í Tónkvísl á Laugum. Fanney söng lagið "If I were a boy" og gerði það án undirleiks. Þótti dómnefndinni hún standa sig mjög vel, rödd hennar var ljúf og flutningur góður.

Þetta er í þriðja sinn sem HÆNA er haldin. Það er ljóst að þessi keppni á bara eftir að eflast og verða stærri í sniðum með ári hverju.
Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd kvöldsins fyrir þeirra frábæru störf. Skreytingar og veitingar settu svo sannarlega punktinn yfir i-ið.

Jóna Lovísa Jónsdóttir
prestur við Akureyrarkirkju.