Kærleiksþjónusta

Sögu kærleiksþjónustunnar má rekja alla leið aftur í Biblíuna. Fyrirmynd þjónustunnar er Jesús Kristur, kærleiksverk hans og umhyggja fyrir mönnunum. Sjá má af sögum úr Guðspjöllunum hvernig Jesús leggur áherslu á að þjóna náunganum af kærleika. Eitt af því sem einkennir kristindóminn öðru fremur er samhjálpin og umhyggjan fyrir náunganum. Nú má með sanni segja að einmitt þessi áhersla á kærleiksverkið hafi smátt og smátt þróast út í fjölþætt líknar- og mannúðarstarf í kristnum löndum. Sagan af miskunnsama Samverjanum er þannig dæmisaga af manni sem þjónaði náunga sínum af kærleika. Kærleiksþjónustan skiptist í tvo hluta, líknar- og fræðsluþjónustu. Líknarþjónusta felur m.a. í sér heimsóknarþjónustu, þjónustu við aldraða, kærleiksmáltíðir, sorgarhópa og fleira sem tengist líkn og aðhlynningu. Fræðsluþjónusta inniheldur hins vegar ýmiss konar barna- og æskulýðsstarf s.s. sunnudagaskóla, sérstakt starf fyrir tíu til tólf ára börn, fermingarfræðslu, æskulýðsstarf og ýmislegt fleira sem hefur með huggun og hlýju að gera. Maðurinn er fyrst og fremst félags- og menningarvera, eða eins og máltakið segir: "Maður er manns gaman". Í stórborginni, sem saman stendur af talsverðum fólksfjölda og litskrúðugu mannlífi, getur einmanaleikinn ekki síst þrifist. Þörfin fyrir kærleiksþjónustu kirkjunnar er mikil því skórinn kreppir víða í íslensku samfélagi og kirkjan tekur þátt í því að mæta þeim erfiðleikum sem fólk glímir við í nútímaþjóðfélagi, meðal annars í gegnum kærleiksþjónustuna.