Sumartónleikar í Akureyrarkirkju kl. 17.00

Corpo Di Strumenti
Ástin heldur að ég sofi
Sellóleikaranir í Corpo di Strumenti, ásamt tenórsöngvaranum ástsæla Eyjólfi Eyjólfssyni, flytja perlur sautjándu aldarinnar frá Ítalíu, Frakklandi og Englandi. Þangað sækir Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir að auki innblástur að tveim nýjum sönglögum sem frumflutt verða á tónleikunum.

Barokkhópurinn Corpo di Strumenti hefur margsinnis komið fram á hátíðum víða um Ísland og í Frakklandi. Tónlist sextándu og sautjándu aldarinnar er hópinum sérlega hugleikin og er það hópnum mikil ánægja að flytja sína uppáhaldstónlist ásamt Eyjólfi Eyjólfssyni. Eyjólf þarf vart að kynna. Hann hefur sungið í óperum og á tónleikum víða um heim og á Íslandi. Þá er hann einnig ötull þátttakandi í sprellifandi þjóðlagahefðinni með langspil við hönd. Eyjólfur var á dögunum tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem söngvari ársins.
Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir semur lög og ljóð og hefur nýlega gefið út aðra ljóðabók sína, FUGL/BLUPL. Corpo di Strumenti á sér indípopp-alter-ego undir nafninu SÜSSER TROST. Hópurinn sendir nú frá sér plötuna Ljúfa huggun með lögum Steinunnar, sem njóta sívaxandi vinsælda.
Hægt er að fylgjast með hópnum á vefnum: corpodistrumenti.org
og hægt er að finna okkur sem Corpo di Strumenti / SÜSSER TROST á facebook.

Corpo Di Strumenti mun koma fram á Sumartónleikum í Akureyrarkirkju þann 21. júlí kl. 17.00.
Aðgangur er ókeypist og allir hjartanlega velkomnir.

Tónleikaröðin er styrkt af KEA, Akureyrarstofu, Akureyrarbæ og er partur af Listasumri á Akureyri.